Arctic Trucks Island

Saga jeppans á Íslandi

 

Fyrsti fjórhjóladrifsbíllinn
Vegagerð ríkisins eignaðist fyrstu fjórhjóladrifsbifreið á Íslandi árið 1927. Þetta var öflug vörubifreið sem bar tegundarheitið FWD (Four Wheel Drive). FWD verksmiðjurnar voru bandarískar en bílarnir voru einnig smíðaðir í Englandi og þaðan kom þessi bíll. FWD bíllinn var meðal annars notaður til að ryðja snjó af vegum. FWD bíllinn var, á síðari hluta fjórða áratugarins, notaður til að draga þyngstu stykkin í Sogsvirkjanirnar en hann var að lokum brenndur og urðaður árið 1960 sökum plássleysis hjá Vegagerðinni og þykja það í dag dapurleg örlög annars sögulegs bíls.

 

Landnám jeppans
Meðal hergagna breska herliðsins sem kom til landsins vorið 1940 voru auðvitað bílar. Þegar Bandaríkajmenn tóku við vörnum landsins af Bretum í júlí 1941 komu jepparnir. Íslendingar horfðu hýru auga til jeppanna og svo fór að utanríkisráðuneytið fór þess á leit við bandarísku herstjórnina að lánaðir yrðu tveir jeppar til íslendinga til að reyna þá í víðáttumiklum vegleysuhéruðum Íslands. Herstjórnin féllst á þessa bón og fyrir valinu urðu Dalahérað og Þistilfjarðarhérað á Langanesi. Þeir sem fengu jeppana til reynslu voru læknarnir Brynjúlfur Dagsson í Búðardal og Þórður Oddsson á Langanesi. Þeir fengu jeppana í hendur í ágúst 1943.

 

„Jeep bifreið fer yfir mýri sem laus hestur stígur niður úr öðru hvoru“
Læknunum sem fengu fyrstu jeppana til reynslu var gert að gera grein fyrir notgildi þeirra því um tilraun var að ræða.
Úr umsögn: „Fyrst og fremst má segja um bifreiðarnar að þær eru léttar og handhægar. Þær eru léttar í snúningum og auðvelt að draga þær upp úr ef þær festast. Í framdrifi gera þær öll átök léttari og gætir þess mjög í blautum mýrum, forarleðju og lausasnjó. Þar sem lítil er viðspyrna er eins og Jeep-bifreiðarnar syndi yfir með sínu jafndreifða átaki gegn undirstöðunni.“

 

Fyrsta jeppahúsið
Í greinargerð læknanna sem reyndu fyrstu jeppanna við íslenskar aðstæður kemur fram að jepparnir hafi verið „ill nothæfir í slagviðrisrigningum og stórhríð með tjaldþakinu og óvarðir til hliðanna“. Hermenn sem notuðu jeppa á köldum svæðum kölluðu þá „lungnabólguvagna“. Til að gera ökuferðirnar notalegri lét Þórður læknir tengdaföður sinn smíða skýli úr krossviði yfir bílinn og er þetta án efa fyrsta jeppahús á Íslandi

 

Jeppar 25% af fólksbílaflotanum
Í stríðslok áttu Íslendingar tölvert af gjaldeyri eftir mikla fisksölu til annarra landa. Togarar voru því ekki einu „nýsköpunartækin“ sem keypt voru heldur urðu jeppar einnig mjög vinsælir. Jeppaeign landsmanna óx úr 189 jeppum árið 1945 í 1646 jeppa í árslok 1947. Mest var keypt af Willys en einnig eitthvað af Ford.

 

Landbúnaðar jeppar
Á árunum eftir stríð voru í gildi úthlutunarreglur við sölu bíla og var starfandi sérstök jeppanefnd á vegum hins opinbera. Bændur höfðu forgang samkvæmt reglunum. Jepparnir urðu því mjög vinsæl farartæki í sveitum og var ekki óalgeng sjón að sjá fleiri en einn jeppa á hverjum bæ.


 


Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi

Vefir