Arctic Trucks Island

Vélin á kafi í vatni?

 

Hvað skal gera þegar bíll fer á bólakaf í vatn?
Ef ekki steðjar hætta að fólki er mjög mikilvægt, til að komast hjá meiri háttar vandræðum, að drepa á vél bílsins eins fljótt og frekast er kostur. Oft er hægt að bjarga lauslegum hlutum á þurra staði í bílnum og einnig er mjög mikilvægt að slökkva sem fyrst á öllum rafeindatækjum áður en þau fara á kaf í vatn.

 

Þegar búið er að bjarga bílnum á land eftir volkið?
Við hvetjum ekki til að fólk takist á við að gera við vélina sjálft en ef aðstæður eru þannig að ekki verður hjá því komist er mikilvægt að gera hlutina í réttri röð og láta ekki ringulreiðina sem vanalega myndast við slíkar aðstæður slá mann út af lagi.
Það sem við mælum með, ef bíll fer á kaf í vatn, er að draga hann á næsta verkstæði eða í það minnsta leita aðstoðar hjá þeim sem kann til verka.

 

1. Taka kerti úr vél (bensínvélar) glóðarkerti eða spíssa (dísilvélar)
2. Snúa vélinni 2 hringi með handafli til að tæma megnið af vatninu
3. Tæma vatn úr lofthreinsara, túrbínu, millikæli og loftinntaki og úr öllum rörum þar á milli. Millikælirinn er gjarn á að geyma mikið af vatni
4. Taka botntappa úr pönnu, vatnið kemur fyrst af því að það er eðlisþyngra en olían. Um leið og vatnið hættir að koma á að setja tappan í aftur. Ávalt skal passa að olían leki ekki niður í jarðveginn.
5. Mæla smurolíuhæð. Þó að smáveigis vatn (5 mm á kvarða) hafi blandast olíunni er ekki ástæða til að hætta aðgerðum eða skipta um olíu strax. Við mælum þó með að skipt sé við fyrsta tækifæri.
6. Ef grunur leikur á að stimpilstöng hafi bognað, t.d. ef vélin hefur stoppað snögglega af völdum vatns eða það hefur verið reynt að starta henni með vatn inni á er hægt að mæla ofan á stimpilkolla í toppstöðu gegnum kerta eða spíssagatið.  Mikilvægt er að mæla mjög nákvæmlega stöðu stimplanna og helst að miða við planaðan sléttan flöt. Ef minnsti grunur leikur að stimpilstöng hafi bognað þarf að skipta um hana (ef vélin er sett í gang með bogna stimpilstöng er mikil hætta á meiri skemmdum)
7. Starta vélinni, án þess að setja kerti eða spíssa í og láta hana blása restinni af vatninu þar til ekki kemur meira.
8. Kerti eða spíssar settir í.
9. Vélin sett í gang

 

Hvað þarf að athuga fleira?
Ath: ef vélin er tölvustýrð þarf að þurrka stjórntölvuna ef hún hefur lent á kafi. Hún er yfirleitt ínni í mælaborði á bak við hanskahólfið.
Gírkassa, millikassa  og drif þarf að tæma af vatni á sama hátt og vélina.
Þegar komið er í bæinn er ráðlegt að smyrja í alla smurkoppa og athuga hvort vatn hafi komist í hjóllegur og jafnvel láta hreinsa upp startarann því þar vill oft sitja vatn.

 

Hvað með græjurnar?
Mikilvægt er að hafa ekki kveikt á rafeindatækum á meða þau eru blaut en flest þola þau volkið ef þau eru þurrkuð vel á eftir.
Ef um saltvatn er að ræða er hugsanlega hægt að bjarga tækjunum með því að skola þau úr ferskvatni og láta þau jafnvel liggja þar í einhvern tíma áður en reynt er að þurrka þau.

 

 


Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi

Vefir